Frétt

Karlakórinn Heimir kom, sá og sigraði

Einn bjartan laugardag í mars komu stormandi inn um dyrnar í Mörk tugir herramanna klæddir í vínrauða jakka og héldu beint í matsalinn. Þar voru komnir félagar í Karlakórnum Heimi sem buðu heimilismönnum Markar sem og íbúum í þjónustuíbúðum GM upp á stórkostlega tónleika. Söngurinn barst upp á hæðir og félagarnir tóku hvert lagið á fætur öðru sem flestir könnuðust vel við. Stjórnandi kórsins er Stefán R. Gíslason og undirleikarar Tómas R. Higgerson og Valmar Valjaots. Óskar Pétursson söng einsöng og  aukatvísöng tóku þeir Óskar og Pétur Péturssynir. Kvartettinn skipuðu Birgir Þórðarson, Pétur Pétursson, Einar Valur Valgarðsson og Pétur Stefánsson. Eftir þessa frábæru tónleika bauð Þorvaldur Þorvaldsson matreiðslumeistari og hans fólk í eldhúsinu upp á randalínu og kaffi og gaukaði að kórfélögum brennivínsstaupi og hákarlsbitum. Kórfélagar færðu að lokum heimilinu að gjöf úrval geisladiska. Takk fyrir komuna og takk fyrir frábæra tónleika.


Myndir með frétt