Frétt

Góðan daginn kæru aðstandendur

Enn um sinn verður snerting og faðmlög að bíða en munum að nútímatæknin getur hjálpað okkur að eiga góð samskipt án þess að vera í sama húsnæði.  Ég hvet ykkur til þess að finna leiðir til að eiga samskipti við ykkar fólk eða fá fréttir án þess að brjóta reglur um heimsóknarbann, margt er hægt að gera eins og við höfum kynnst á undanförnum dögum.  Það að allir taki þátt í þessu er afar mikilvægt og munum að þetta er tímabundið ástand og nú reynir virkilega á að við náum utanum það.

 Starfsfólkið okkar gerir sitt besta í flóknum aðstæðum og sýnir ótrúlega hugmyndaauðgi þegar kemur að því að stytta heimilisfólki stundir í þessu leiðinlega en óhjákvæmilega heimsóknarbanni. Saman vinnum við að því að öllum líði sem best. 

 Nú reynir á þanþol okkar allra og við finnum að þetta kemur nær okkur með hverjum deginum.  Við erum búin að vera að undirbúa okkur undir það að heimilismaður gæti smitast og höfum gert margvíslegar breytingar og áætlanir um hvernig við tökumst á við það.  Við erum líka að breyta okkar vinnulagi nánast á hverjum degi til þess að minnka líkur á smiti hér á heimilinu.  Við ætlum hins vegar að halda áfram í vonina um að við getum haldið smiti frá fólkinu okkar og þökkum fyrir hvern dag sem okkur tekst það.

 Kærar þakkir og bestu kveðjur frá okkur öllum í Mörk

Ragnhildur