Frétt

Flottustu svalirnar í Mörk

Dómnefnd fór upp á hæðir fyrir síðustu helgi með það að markmiði að meta flottustu svalirnar í Mörk en það hefur verið siður í mörg ár. Það kom fljótlega í ljós að það yrði erfitt val. Lang flestir höfðu lagt sig fram við að hafa svalirnar snyrtilegar, litríkar og heimilislegar – kannski ekki ósvipað leiðarljósi okkar hér í Mörk.

Við valið hafði dómnefndin eftirfarandi þætti í huga:
- Skipulag og samsetning blóma
- Umhirða blóma (vökvun, snyrting o.fl.)
- Heimilisbragur (púðar, tímarit, styttur o.fl.)
- Snyrtimennska og stílisering

Líkt og við sögðum var keppnin hörð en niðurstaða dómnefndar er eftirfarandi:

1. verðlaun fékk Réttarholt eða 4. hæð suður
Svalirnar fengu fullt hús stiga fyrir alla þættina. Allt skipulag, umhirða og snyrtimennska var til fyrirmyndar. Þetta voru svalirnar sem voru hvað mest heimilislegar og sjá mátti hvað öll smáatriði höfðu verið hugsuð til enda. Þetta eru svalir með x-factor! Álfastyttum var vel raðað, púðar í stólum, festingar fyrir dúka, bjalla fyrir heimilisfólk til að klingja o.fl. Þannig að eftirsóknarvert er að setjast niður og njóta.

2. verðlaun fékk Glaumbær eða 2. hæð suður
Þessar svalir fylgdu fast á hæla Réttarholts. Mjög fast! Þær fengu einnig fullt hús stiga. Þar hafði álfum og styttum verið stillt upp, virkilega sjarmerandi og snyrtilegt. Þær eru einnig með tímastilltar luktir svo þar er eflaust enn huggulegra um að lítast að kvöldi til. Púðar eða teppi hefðu toppað heimilisbraginn.

3. verðlaun fékk Miðbær eða 2. hæð miðja
Á þessum svölum var sérstaklega vel hugsað um blómin sem mörg hver voru framandi auk tómatplöntu sem var ekki að sjá á öðrum heimilum. Runnar vel klipptir og snyrtir. Gólf vel hreinsuð og teppi á stólum. Sumarlitir og fylgihlutir hefðu toppað þessar svalir!

Hér fyrir neðan má sjá myndir af vinningssvölunum þremur.

Í dómnefndinni voru Ása Lára Axelsdóttir Thelma Hafþórsdóttir Byrd og Vaida Stankute


Myndir með frétt