Starfsmannastefna

Starfsmannastefna

Hjúkrunarheimilið Mörk var stofnsett í ágúst 2010 og samið var við Grund um rekstur þess. Ákveðið var að reka heimilið í anda Eden hugmyndafræði. Það þýðir í hnotskurn  að aldraðir halda sjálfræði sínu og búa á litlum og notalegum heimiliseiningum og eru í reglulegri umgengni við börn, gæludýr og lifandi plöntur. Starfsfólk er að vinna inni á heimili heimilisfólksins en heimilisfólkið er ekki inni á vinnustað starfsfólksins.  Þessi markmið nást ekki nema með  samvinnu allra sem á heimilinu starfa. Stöðugleiki í starfsmannahópnum er mikilvægur og góðir starfsmenn eru mikilvægasta auðlind heimilisins.

Ráðningar

Leitast er við að ráða til heimilisins starfsfólk sem býr yfir þroska, reynslu, ábyrgðartilfinningu, jákvæðni, reglusemi og heiðarleika. Trúnaður, hlýja og traust eru lykilatriði. Mörk leggur áherslu á mikilvægi þess að starfsmenn hafi fjölbreytta reynslu og menntun og þeir séu á öllum aldri. Fólk sem komið er yfir miðjan aldur er einnig hvatt til að bætast í starfsmannahópinn. Ráðningarsamningur er skriflegur og starfslýsing fylgir ráðningarsamningi. Karlar og konur hafa jafnan rétt hvað snertir starf í Mörk, starfsframa og samþættingu starfs og fjölskyldulífs.

Samskipti

Starfsmenn skulu sýna heimilisfólki virðingu og hlýtt viðmót og veita faglega þjónustu. Þeir eru bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og skulu virða einkalíf heimilisfólksins svo og persónu, skoðanir og þekkingu samstarfsfélaga sinna. Framkoma sem veldur öðum vanlíðan eða óöryggi verður ekki liðin. Starfsmenn skulu vel upplýstir um málefni sem eru á döfinni og fá í hendur upplýsingahandbók þegar þeir hefja störf í Mörk. Heimilið keppir að því að skapa traust milli starfsmanna og stjórnenda.  Þar að auki er hægt að fá viðtal hjá forstjóra, hjúkrunarstjórum, starfsmannastjóra og samskiptafulltrúa Grundar.

Vinnufatnaður

Starfsmenn klæðast eigin fatnaði við vinnu og fá fatapeninga samkvæmt kjarasamningum. Mörk útvegar hlífðarsvuntur eða sloppa þegar sinna þarf verkum þar sem hlífa þarf fatnaði.

Kjaramál

Hver starfsmaður gerir ráðningarsamning við heimilið og eru fyrstu þrír mánuðir í starfi reynslutími. Eftir þann tíma er starfsmaður fastráðinn nema annað sé tilgreint í ráðningarsamningi. Mörk greiðir laun samkvæmt kjarasamningum hvers stéttarfélags og fylgir þeim ákvæðum sem sett eru í samninga.

Starfsþróun og fræðsla

Leitast er við að gefa starfsmönnum tækifæri á framgangi í starfi með fræðslu og þjálfun og skapa þeim skilyrði til virkrar endurmenntunar. Starfsmönnum gefst kostur á að sækja námskeið og fræðslu innan heimilisins sem utan til að auka þekkingu sína og faglega hæfni og þróast í starfi. Heimilið tekur þátt í greiðslu námskeiðskostnaðar en ætlast jafnframt til að þeir sem hafa aðgang að starfsmenntunarsjóðum sæki um styrki þar. Starfsmenn eru hvattir til að afla sér þekkingar og miðla til annarra samstarfsmanna. Símenntun er jafnt á ábyrgð starfsmanns og yfirmanns. Stefna Markar er að koma á formlegum starfsmannasamtölum við næsta yfirmann einu sinni á ári.

Starfslok og starfslokaviðtöl

Starfsmenn hætta störfum í Mörk  það ár sem þeir verða sjötugir. Hafi starfsmenn hug á að vinna áfram og áhugi er á því af hálfu Markar er gerður samningur um lausráðningu og sá samningur endurskoðaður á hálfs árs fresti. Starfslokaviðtöl standa starfsmönnum til boða.

Viðvera og vinnutími

Lagt er  upp úr því að starfsfólk mæti á umsömdum tíma og virði vinnutíma. Starfsmönnum er skylt að stimpla sig þegar mætt er til vinnu og farið er heim. Ekki er leyfilegt að stimpla kort annarra starfsmanna og varðar það áminningu ef starfsmaður verður uppvís að slíku. Það er á ábyrgð yfirmanns að fylgjast með mætingum og grípa inn í ef útaf bregður.

Einkalíf og vinna

Heimilið styður starfsmenn til samræmingar starfs og fjölskyldulífs með sveigjanlegum vinnutíma þar sem það á við og hlutastörfum. Mörk er annt um velferð starfsfólksins og leitast við að veita því aðstoð og stuðning við erfiðar aðstæður.

Sálgæsla starfsfólks

Starfsmenn geta leitað til heimilisprests eða djákna sé þess óskað.

Gjafir

Starfsmenn mega ekki þiggja neinar gjafir frá heimilisfólki nema að höfðu samráði við sinn yfirmann. Fari gjöfin yfir 5.000 króna andvirði þarf að taka það sérstaklega fyrir. Starfsmenn mega ekki undir nokkrum kringumstæðum þiggja peningagjafir frá heimilisfólki. Sömu reglur gilda líka um yfirmenn gagnvart heimilisfólki og starfsfólki.