Læknisþjónusta

Læknisþjónusta

Helga Hansdóttir, lyf og öldrunarlæknir er yfirlæknir hjúkrunarheimilisins en einnig starfar á heimilinu Halldór Kolbeinsson, geðlæknir, Jóhanna Jónasdóttir heimilislæknir og Tryggvi Þ. Egilsson öldrunarlæknir.  Hvert heimili hefur sinn lækni sem kemur reglulega á heimilið. Hina dagana er innlit þess læknis sem kemur í hús. Um helgar koma vaktlæknar í hús en læknar Markar og Grundar deila með sér bakvöktum.
Stefnt er að nánum tengslum og trausti milli lækna og heimilismanna og aðstandenda þeirra. Við komu er farið yfir heilsufar einstaklings og gerð áætlun um meðferð og eftirlit. Fjölskyldufundir eru haldnir reglulega með aðstandendum og heimilisstýrum til að styrkja tengsl, skiptast á upplýsingum og skilgreina þarfir heimilismanna. Einnig er rætt um gildismat heimilismanna og  óskir varðandi meðferð í alvarlegum veikindum. Hægt er að veita fjölbreytta meðferð heima í Mörk en ef þörf er á flókinni meðferð og eftirliti, er heimilismaður sendur á Landspítalann.  Í allri meðferð er lögð áhersla á lífsgæði og að halda færni einstaklingsins eins og kostur er. Einnig er hugað að forvörnum eins og byltu- og brotavörnum, bólusetningum og eftirliti með sjón og tannheilsu. Heimilismenn þurfa að leita á stofur sjálfstætt starfandi augnlækna og tannlækna. Sjúkraþjálfarar og  iðjuþjálfi  starfa í Mörk, og sjá um daglega hreyfingu og virkni auk endurhæfingar þegar við á.