Sérstök ljósmyndasýning á Grund

Nú stendur yfir all sérstök ljósmyndasýning á fyrstu hæð Grundar. Um er að ræða ljósmyndapör. Kjartan Örn Júlíusson, sviðsstjóri öryggis og upplýsingatæknisviðs Grundar, tók nýju myndirnar en langafi hans Björn M. Arnórsson þær gömlu. Árið 2016 hélt Kjartan sýningu á myndunum og hluti ljósmyndaparanna er nú til sýnis á Grund.

Kjartan hafði í nokkur ár dundað sér við að feta í fótspor langafa síns sem hafði tekið ljósmyndir á ýmsum stöðum á landinu. Björn tók myndirnar á árunum  milli 1930 og 1940 en Kjartan á árunum 2012 til 2015.

„Ég reyndi að fara í nákvæmlega sömu fótspor og langafi og standa á sama stað og hann þegar ég smellti af. En hann þurfti að leggja meira á sig en ég til að komast á suma staðina, því ekki var búið að leggja vegi að þeim öllum þegar hann var þar á ferð. Hann þurfti stundum að fara á hestum yfir ófærur þar sem ég gat ekið á bíl, til dæmis til að komast að Slæðufossi...“

Sjón er sögu ríkari, endilega komið við á ganginum með heimilisfólkinu ykkar á Grund og skoðið.