Fréttir

Heimilispósturinn - mars 2022

Heit eggjakaka í morgunmat

Stundum er gott að bregða út af vananum og það er einmitt það sem gert var í eldhúsinu á Litlu Grund fyrir síðustu helgi. Þá ákvað starfsfólkið að skella í eggjaköku og bjóða með hafragrautnum og því venjulega sem er á boðstólum á morgnana. Það var almenn ánægja með tilbreytinguna.

Notaleg stund

Það var notaleg stemningin í Bæjarási nú í vikunni og það sést auðvitað ekki á mynd en það var sungið á meðan var verið að greiða og punta: Þær eru að fara á ball. Góða helgi öll.

Að bjarga gefur mjög mikið

Ég er formaður Hjálparsveitar skáta Hveragerði. Og hef sinnt björgunarstörfum undanfarin sjö ár. Það er feikn gefandi að fá að bjarga, hjálpa til. En fátt er þó meira gefandi en að bjarga mannslífi. Var einn nokkurra björgunarmanna síðastliðinn laugardag að grafa ungan dreng úr snjóflóði í Hamrinum í Hveragerði. Með samhentu átaki okkar björgunarmanna í Hveragerði og félaga okkar í Björgunarfélagi Árborgar þá tókst að bjarga drengnum úr flóðinu, tiltölulega lítið sködduðum. Stóri bróðir hans, sem var að leika sér með honum í snjóhengjunum í Hamrinum, brást hárrétt við með því að fjarlægja snjó frá andliti bróðursins og hringja strax í einn einn tvo, 112. Þannig var það auðvitað í raun hann sem bjargaði lífi hans í byrjun, við tókum bara við björguninni þegar við mættum á staðinn. Björgunarsveitin í Hveragerði er tiltölulega lítil sveit, enda rétt rúmlega 3.000 manna bæjarfélag á bak við okkur. En þeir góðu félagar sem eru í sveitinni eru mjög samhentir og duglegir við að æfa og mæta í þau útköll sem okkur berast í símana okkar með smáskilaboðum frá Neyðarlínu. Þar að auki stendur bæjarstjórn og allir bæjarbúar þétt að baki sveitinni. Bæjarstjórnin með hagstæðum og góðum samningi með föstum fjárframlögum til okkar og allur almenningur styður okkur með ráðum og dáð, og peningum, með kaupum á Neyðarkalli, flugeldum og hverju öðru því sem við gerum til að afla okkur fjár. Fyrir það erum við mjög þakklát, þannig getum við rekið sveitina og búið hana bestu tækjum og búnaði sem völ er á. Þessi vetur hefur verið heldur annasamur. Mörgum sinnum höfum við lokað Hellisheiðinni og farið í slatta af óveðursútköllum. Síðastliðinn mánudag lenti ég svo í því að selflytja farþega úr rútu sem fór út af í Skíðaskálabrekkunni í snarvitlausu veðri. Farþegarnir voru erlendir ferðamenn og margir hverjir frekar skelkaðir þegar ég kom um borð í rútuna. En með brosi og yfirvegun voru þeir allir fluttir með björgunarsveitarbílum í Hellisheiðarvirkjun þar sem þeir dvöldu í góðu yfirlæti þangað til að þeir voru sóttir seinna um kvöldið þegar veðrinu slotaði. Þakklæti og gleði foreldra og aðstandenda litla drengsins var ósvikið og innilegt eftir björgunina. Einnig skein ósvikið og mikið þakklæti úr augum ferðamannanna í rútunni og bílstjóra hennar. Að finna slíkt gefur lífinu, já björgunarsveitarlífinu, mikið gildi. Förum varlega í vonda veðrinu í dag, og ef fleiri slíkir dagar koma seinna í vetur. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

100 ára afmæli Garðars og Grundar

Það var hátíðlegt á fjórðu hæðinni í Mörk í gær þegar Garðar Sigurðsson heimilismaður fagnaði 100 ára afmæli. Svo skemmtilega vill til að hann á aldarafmæli sama ár og Grund sem fagnar 100 ára afmæli þann 29. október næstkomandi. Boðið var upp á heitt súkkulaði og rjómatertu á öllum Grundarheimilunum af þessu tilefni. Aðstandendur Garðars og heimilismenn á fjórðu hæðinni fögnuðu með honum, Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna mætti í afmælisboðið, blaðamaður Morgunblaðsins tók við afmælispiltinn viðtal og síðan var spilað á gítar og sungið.

Krosstré sem önnur

Fyrsta færanlega samskiptatækið mitt í vinnunni fyrir um það bil 30 árum var símboði. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá var þetta lítið tæki sem sendi manni símanúmer sem maður svo hringdi í þegar maður komst í síma. Bylting. Þá fékk ég mér NMT síma í bílinn nokkrum árum síðar, mikill hlunkur en skipti ekki máli þar sem tækið var í bílnum. Hægt að hringja úr bílnum. Önnur bylting. Þá fékk ég mér farsíma fyrir líklega um 20 árum, og þá hægt að hringja hvar sem maður var, svo framarlega sem það væri símasamband. Þriðja byltingin. Svo komu fram á sjónarsviðið fyrir um það bil áratug snjallsímar. Í raun litlar tölvur og símtæki, hægt að hringja, skoða alnetið, afgreiða tölvupóst og margt fleira. Fjórða byltingin. Sem ég hef þrjóskast við að taka í notkun. Mótþróinn við að fá mér snjallsíma hefur byggst fyrst og fremst á því að ég hef viljað forðast að vera alltaf í vinnunni. Fá tölvupóstinn í símann er eitur í mínum beinum. Og vera beintengdur alnetinu er líka eitthvað sem hefur ekki heillað mig. Ég er fíkill, laus við brennivínið og á það til að vinna aðeins of mikið, eða kannski á röngum tíma sólarhringsins. Og þess vegna hef ég ekki fengið mér svona fínan snjallsíma hingað til. Fékk mér á síðasta ári Noka 105 takkasíma hjá Nova, 5.900 kr. Sumir hafa sagt við mig að það sé hægt að stilla þessi fínu snjallsímatæki þannig að þau taki ekki á móti tölvupóstum og þess háttar, en slíkt virkar ekki fyrir fíkilinn. Um daginn fékk ég talsvert áfall. Var í björgunarsveitarútkalli og þau byggjast öll á upplýsingum í og úr snjallsímum. Og öppum tengdum þeim. Ég snjallsímalaus, hugsanlega að missa af því að bjarga fólki úr lífsháska, af því að ég var svo þrjóskur að fá mér ekki snjallsíma. Þess utan var ég farinn að senda hina og þessa til að taka fyrir mig myndir og senda mér, útvega upplýsingar í gegnum snjallsímana þeirra og þannig mætti lengi telja. Einnig lagt ýmislegt á mig til að fá senda til mín tölvupósta með óhefðbundnum hætti til að geta sinnt vinnu minni sómasamlega. Og þó ég sé frekar þrjóskur, þá er ég ekkert mjög illa gefinn. Hef stýrt mínu lífi á þann veg að hámarka eigin not og gæði og lifa þannig lífinu lifandi. Hagfræðinámið kenndi mér þetta og hefur kannski alltaf verið þannig á bak við annað eyrað. Nú er svo komið að ég tel hag mínum, og reyndar fleiri í kringum mig, betur borgið með því að ná mér fljótlega í snjallsíma og nota hann í starfi og leik um ókomna tíð. Hef þó enn mikinn vara á því að ánetjast ekki alfarið slíku tæki með hangsi á alnetinu, facebook og þess háttar þegar maður hefur lausa stund. En eitt síðasta vígi gamla góða takkasímans er fallið 😊 Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Kippum plástrinum af í hvelli

Við þekkjum öll tilfinninguna að rífa af okkur plástur. Sérstaklega þegar við vorum yngri, þá hræddumst við, sum hver í það minnsta, að rífa af okkur plásturinn. Og gerðum það hægt og varlega. Stundum féllst maður á beiðni foreldranna um að gera það hratt, það var vissulega verra en stóð yfir í mun styttri tíma. Það er síðan huglægt mat hvers og eins að vega og meta kosti og galla, hvorrar aðferðar fyrir sig, mikill sársauki í stuttan tíma eða lítill sársauki í langan tíma. Þó að þetta eigi ekki beina tilvísun í yfirstandandi tilslakanir sóttvarna á vegum ríkisvaldsins, þá finnt mér engu að síður að þetta eigi pínu samleið. Í fyrstu virtust stjórnvöld ætla að rífa plásturinn hægt og rólega af, en mér sýnist verulegur þrýstingur vera á þau að kippa honum snögglega af sárinu. Því fylgja kostir og gallar, eins og flestu í okkar lífi. Eðli máls samkvæmt verða fleiri smit, fleiri forfallaðir til vinnu, fleiri leggjast inn á LSH í einu og svo framvegis ef tilslakanir verða hraðar. En þetta mun líklega standa mun skemur yfir. Mjög svo umtalað hjarðónæmi mun nást á skemmri tíma og þar með verður þessi andstyggðar veira, covid 19, svo gott sem úr leik í þjóðfélaginu. Við eigum engu að síður eftir að eiga við eftirköst hennar um all nokkurt skeið. Heilbrigðisþjónustan á eftir að jafna sig, vinna upp biðlista sem voru nú margir hverjir alltof langir fyrir veiruna, atvinnulíf og þá sérstaklega ferðaþjónustan á eftir að ná jafnvægi og svo mætti lengi telja. Fyrir okkur sem rekum hjúkrunarheimili skiptir miklu máli að þessari baráttu ljúki sem fyrst. Snögg afrifa plástursins mun vissulega valda okkur meiri vandræðum en ella, en til mun skemmri tíma. Nú þegar hafa all nokkrir heimilis- og starfsmenn Grundarheimilanna sýkst af covid 19 en hinir „eiga það eftir“ ef þannig má að orði komast. Og á nokkrum einingum Grundarheimilanna er ástandið talsvert alvarlegt, bæði veikindi heimilis- og starfsmanna og þar af leiðandi erfitt að manna vaktir eins og nauðsyn krefur. Engu að síður tel ég að orðatiltækið „illu er best aflokið“ eigi bara ágætlega við í þessu efni. Eflaust eru einhverjir heimilismenn, aðstandendur þeirra, starfsmenn og stjórnendur Grundarheimilanna ekki sammála mér með þetta, en það er líka bara allt í góðu. Skoðanaskipti eru af hinu góða. Kipppum plástrinum af í hvelli. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Sigraði í þorrabingói

Árni Friðrik sigraði Þorrabingó Grundar 2022. Hann fékk bindi og klút í verðlaun sem hann var ekki lengi að skreyta sig með.

Þorramatur og létt yfir mannskapnum

Það var létt yfir mannskapnum í Mörk í dag enda boðið upp á þorramat og allt sem honum tilheyrir. Svei mér þá ef Covid var ekki bara gleymt og grafið í smástund. Góða helgi

Þorramatur og tóm gleði

Öll PCR próf sem voru tekin í dag reyndust neikvæð. Það var stemning í hádeginu hjá okkur á Litlu og Minni Grund og loksins fengum við þorramatinn. Flestir eru lausir úr einangrun en þó ekki allir og við opnum fyrir heimsóknir á Litlu og Minni Grund á ný næsta þriðjudag. Við erum fegin að sjá fyrir endann á þessu og förum glöð inn í helgina