Fréttir

Tólfta starfsár Grundarkórsins hafið

Tólfta starfsár Grundarkórsins er hafið og það var vel mætt á fyrstu æfingu vetrarins. Minnum á að allir söngelskir eru hjartanlega velkomnir í kórinn, heimilisfólk, aðstandendur, starfsfólk og aðrir velunnarar Grundar.

Vöfflukaffið farið af stað aftur hjá íbúum íbúða 60+

Fyrsta vöfflukaffið eftir sumarfrí var á mánudaginn. Það var góð mæting og mikil gleði meðal íbúa með að kaffið sé byrjað aftur. Allir íbúar eru velkomnir á mánudögum kl. 14:30-15:30 í Kaffi Mörk.

Sumar og sól á Grund

Það var haldin sumarhátíð á Grund í dag af því að veðurspáin lofaði sól og bongóblíðu. Hátíðahöldin voru einnig liður í því að minnast 100 ára afmælis Grundar en heimilið fagnar aldarafmæli þann 29. október næstkomandi. Regína Ósk og Sveinn héldu uppi fjöri með hressum lögum, Jón Ólafur gekk um með nikkuna, boðið var upp á andlitsmálningu og smáfólki var boðið upp á skrautlegar blöðrur og í hoppukastala. Gengið var um með ís, sætindi, safa og gos og síðan gátu ungir gestir farið í kubb eða "húllað". Frábær dagur í garðinum og veðrið lék svo sannarlega við okkur. Takk öll fyrir komuna í dag.

Sumarferð íbúa 2022

Hin árlega sumarferð íbúa var í síðustu viku. Farið var með rútu frá Mörkinni og keyrt austur fyrir fjall. Fyrsta stopp var í Forsæti í Flóahreppi en þar er gallerý þeirra hjóna Ólafs Sigurjónssonar og Bergþóru Guðbergsdóttur. Í hádeginu var komið við í Ási í Hveragerði þar sem Gísli Páll tók á móti hópnum og snæddur var hádegisverður, en það var einnig keyrt um bæinn og kíkt upp í Reykjadal. Ferðinni var svo heitið í Lindina á Laugarvatni í kaffi. Á heimleið var keyrt um Lyngdalsheiði. Fararstjóri ferðarinnar var Hörður Gíslason. Takk allir sem tóku þátt í þessum degi með okkur.

Ný lyfta á Minni Grund tekin í notkun

Í síðustu viku var nýja lyftan á Minni Grund tekin í notkun með viðhöfn. Heimilismaðurinn Eiríkur Jónsson, sem býr á Minni Grund, klippti á borða og síðan var boðið upp á freyðivín og konfekt og auðvitað kaffi og bakkelsi. Jón Ólafur mætti með harmonikkuna og nokkrir gátu ekki á sér setið og tóku nokkur spor.

Sumarhátíð á Grund

Um að gera að mæta á sumarhátíðina á Grund á morgun, þriðjudag. Veðurspáin lofar góðu og ekki leiðinlegt fyrir heimilisfólk að fá aðstandendur í heimsókn og vonandi barna eða barnabarnabörnin líka.

Sumarhátíð í Mörk

Sumarhátíðin í Mörk var haldin í síðustu viku í ekta íslenskum stormi og rigningu! Létum veðrið alls ekki stoppa okkur þar sem við erum alltaf með sól í hjarta Regína Ósk og Svenni komu, spiluðu á gítar og sungu. Þau hjónin geisluðu af gleði og skemmtu okkur af sinni einskæru snilld. Andlitsmálun Ingunnar kom einnig og allir sem vildu fengu andlitsmálun og vá hvað hún er flink að mála og nota glimmer. Blaðrarinn kom líka til okkar og sýndi listir sínar með blöðrur og gerði alls konar fígúrur fyrir okkur, fiðrildi og sverð voru mjög vinsæl. Dásamlegar veitingar voru bornar á borð og enginn fór svangur heim. Takk allir sem komu og glöddust með okkur, þetta var dásemdar dagur

Suðræn stemning á Grund

Það sást til sólar í gær og gleðigjafinn Bjarni að mæta á heimilið. Það var því tilvalið að slá upp hátíð í sólríku portinu, bjóða upp á ís og fallega tóna. Veðrið lék við okkur og allir í essinu sínu. Dásemdar dagur á Grund

Sumarhátíð Markar

Sumarhátíð Markar

Kæru, heimilismenn og aðstandendur Við blásum til sumarhátíðar í Mörk miðvikudaginn 17. ágúst næstkomandi. Sjá nánari upplýsingar í auglýsingu. Hlökkum til að sjá sem flesta.