Fréttir

Síðbúin en kærkomin svör

Nýlega fengum við á Grundarheimilunum mjög svo síðbúin svör frá stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra um styrk sjóðins til ýmissa brýnna framkvæmda á heimilunum þremur. Oft hafa svörin komið í seinna fallinu en aldrei eins og nú. Þetta eru framkvæmdir yfirstandandi árs sem við fáum svo sein svör við. Skýring; það var skipuð ný stjórn í byrjun árs vegna ráðherraskipta og sú stjórn var ekkert mikið að funda. Hvers vegna veit ég ekki og skiptir engu máli. Aðalatriði er að svörin eru komin hús og 13 af 14 voru jákvæð. Þar ber hæst að nefna tvö verkefni. Breyting á hluta af annarri hæð í austurhúsinu á Grund á þá leið að þar verða til fimm einbýli með baðherbergi í stað núverandi sex rýma sem ekki eru með sér baðherbergi. Þetta næst með því að taka norðurhluta borðstofunnar á annarri hæðinni og koma þar fyrir tveimur eins manns herbergjum, hvort með sitt baðherbergið. Þetta eru hænuskref í rétta átt, það er að það verði hægt að bjóða ÖLLUM heimilismönnum Grundar, og Grundarheimilanna reyndar allra, einbýli með sér baðherbergi. Forsenda fyrir því að ljúka þessum breytingum á næstu árum er að ríkið greiði sanngjarna húsaleigu fyrir það húsnæði sem Grundarheimilin við Hringbraut og í Hveragerði útvega ríkinu til reksturs hjúkrunarheimila, lögbundinnar þjónustu sem ríkið ber ábyrgð á. Meira um húsaleiguna síðar. Hitt stóra verkefnið, sem er alveg risastórt, er bygging veitingaskála í suðurgarði Grundar, í u-inu. Þangað verður innangengt úr núverandi matsal starfsmanna á jarðhæð. Skálinn verður í vesturhluta garðsins með útisvæði austan megin, setbekki, leiktæki, gróður og fallegt umhverfi. Þar verður hægt að kaupa sér eitthvað létt í hádeginu, kaffiveitingar og svo bjór eða léttvínsglas seinni part dags. Þessi aðstaða verður fyrsta flokks og tilvalið fyrir heimilismenn að bjóða aðstandendum sínum upp á kaffi og kruðerí eða einn ískaldan öl. Þessar framkvæmdir fara af stað næsta vor og lýkur vonandi seinni hluta næsta árs. Fyrir hönd Grundarheimilanna þakka ég stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra og heilbrigðisráðherra kærlega fyrir framlögin góðu til að bæta aðstöðu heimilismanna okkar. Þessi ákvörðun um framlögin er þeim til mikils sóma. Kveðja og góða helgi, Gísli Páll, forstjóri Grundarheimilanna

Fræðsla fyrir starfsfólk Grundarheimilanna

Um þrjátíu starfsmenn Grundarheimilanna sóttu fræðslu sem líknarteymi LSH hélt í síðustu viku í hátíðarsal Grundar. Að auki voru 19 starfsmenn í fjartengingu. Gagnleg og góð fræðsla.

Heimilispósturinn - október 2022

Samverustund í setustofu

Á þriðjudögum og fimmtudögum er opið hús í setustofu Grundar á þriðju hæð. Þar er ýmislegt haft fyrir stafni, málað, prjónað, sungið og spjallað. Þessa dagana er verið að útbúa listaverk með haustlaufum.

Fagnar aldarafmæli eins og Grund

Það var hátíð á öllum Grundarheimilunum í gær þegar heimiliskonan Sigrún Þorsteinsdóttir fagnaði aldarafmæli sínu. Hún býr á Ási í Hveragerði. Sigrún er einmitt á sama aldri og Grund sem fagnar 100 ára afmæli þann 29. október næstkomandi. Í tilefni dagsins var flaggað á öllum heimilunum, bornar fram marsípantertur og boðið upp á heitt súkkulaði. Gísli Páll Pálsson forstjóri Grundarheimilanna heimsótti Sigrúnu, færði henni blómvönd og spjallaði við afmælisbarnið. Til hamingju elsku Sigrún.

Tjúttað við harmonikkutóna Grundarbandsins

Það er ánægja á Grund með að Grundarbandið sé aftur tekið til starfa eftir Covid. Það mætti í gær í hátíðarsalinn og lék fjörug dægurlög á meðan heimilisfólkið sveif um gólf. Sumir starfsmenn stóðust hreinlega ekki tónana og drifu sig með í dans.

Heimilismenn líta á Grundarheimilin sem sitt heimili

Heimilismenn á Grundarheimilunum eru ánægðir með hjúkrunarheimilið sem þeir búa á og meta lífsgæði sín betri þar en ef þeir byggju enn heima. Aðstandendur eru sömu skoðunar. Heimilismenn telja sig örugga á heimilinu sem þeir búa á og 78% þeirra segjast líta á Grundarheimilið sem sitt eigið. Aðstandendur eru ánægðir með samskipti sín við starfsfólkið sem og með læknis- og hjúkrunarþjónustu. Þeim finnst heimilislegt á Grundarheimilunum og heimilismenn finna umhyggju hjá starfsfólki. Um 40% aðstandenda telur að heimilismenn hafi flutt á réttum tíma á hjúkrunarheimilið en álíka stórt hlutfall telur að þeir hefðu mátt flytja fyrr. Þetta kemur m.a. fram í þjónustukönnun sem framkvæmd var meðal heimilismanna og aðstandenda fyrir Grundarheimilin síðastliðið vor af þekkingarfyrirtækinu Prósent. Könnunin meðal heimilismanna var framkvæmd með einkaviðtölum og var þátttaka tæp 90% af úrtakinu. Könnunin meðal aðstandenda fór fram með netkönnun sem send var í tölvupósti og var svarhlutfall 48% af úrtakinu. Að auki var framkvæmd viðhorfskönnun meðal almennings um viðhorf þeirra til hjúkrunarheimila og heilbrigðismála þeim tengt sem fór fram með netkönnun. Þá kom í ljós að 56% landsmanna eru jákvæðir gagnvart hjúkrunarheimilum en telja að ríkið þurfi að standa sig betur þegar kemur að málefnum hjúkrunarheimila og að auka þurfi fjárframlög til þeirra. Tilgangurinn með þjónustukönnuninni var að gefa stjórnendum og starfsmönnum innsýn í líðan og upplifun heimilisfólks og átta sig þannig á því hvað vel er gert og hvar má gera enn betur. Auk þess var talið gott að fá fram viðhorf aðstandenda og almennings til hjúkrunarheimila og þeirrar þjónustu sem þar er veitt. Álíka viðamikil viðhorfs- og þjónustukönnun hefur ekki áður verið gerð á hjúkrunarheimilum hér á landi og eru þær upplýsingar sem fengust með henni mikilvægar í gæða- og umbótastarfi Grundar. Könnunin gaf til kynna að ástæða sé til að bæta upplýsingagjöf um það sem heimilismönnum stendur til boða hvað varðar til dæmis afþreyingu og einnig þarf að finna leiðir sem auðvelda aðstandendum samskiptin við heimilin. Niðurstöðurnar eru afar ánægjulegar fyrir Grundarheimilin og hvetjandi fyrir stjórnendur og starfsfólk. Í kjölfarið verður nú rýnt i hvar hægt er að bæta um betur.

Hátíðartónleikar í tilefni 100 ára afmælis Grundar

Það var svo sannarlega hátíðlegt á Grundarheimilunum í síðustu viku þegar Guðrún Gunnarsdóttir, Jógvan og Sigga Beinteins mættu og héldu tónleika í tilefni 100 ára afmælis Grundar sem er þann 29. október næstkomandi. Þetta frábæra tónlistarfólk söng lögin hans Fúsa við undirleik Gunnars Gunnarssonar, allt lög sem heimilisfólkið kannaðist svo vel við, Litla flugan, Dagný og Ég vil að börnin fái að fæðast stærri svo dæmi séu tekin. Margir sungu hástöfum með þeim þessi fallegu gömlu dægurlög og það sást líka glitta í gleðitár. Takk fyrir einstaka tónleika, hlýju og fallega nærveru.

Fjarlægði á fimmta hundrað tyggjóklessur

Guðjón Óskarsson hefur verið iðinn við að losa borgarbúa við tyggjóklessur. Í tilefni 100 ára afmælis Grundar þann 29. október næstkomandi var ákveðið að biðja hann um að koma og fjarlægja tyggjóklessur af lóð heimilisins. Guðjón mætti svo sannarlega og dvaldi hér nokkra dagsparta enda voru tyggjóklessurnar á fimmta hundrað í kringum húsið. Takk Guðjón.

Nýr framkvæmdastjóori hjúkrunar í Mörk

Theodóra Hauksdóttir hefur tekið við sem framkvæmdarstjóri hjúkrunar á Mörk hjúkrunarheimili. Hún hefur starfað þar áður sem deildarstjóri og á húsvöktum. Theodóra tók við starfinu af Ragnhildi Hjartardóttur sem starfar nú sem deildarstjóri á Mörk. Theodóra lauk námi í hjúkrunarfræði frá HÍ 1995 og er með diploma gráður í bæði stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu frá EHÍ og endurhæfingu frá HA. Hún hefur víðtæka klíníska og stjórnunarreynslu af störfum sínum bæði hérlendis og frá Norðurlöndunum.